fimmtudagur, júní 05, 2008

Stanslaus sól

Bara alltaf hreint! og svo heitt að það er erfitt að sofna á kvöldin. Enda sýnir hitamælirinn 17 - 20 í plús á tölvuskjánum núna seint öll kvöld í Köben. Ég er enn í verkfalli, hvar endar þetta eiginlega? ja maður spyr sig. Fór til læknisins í morgun og er núna skráð í einhverja aðgerð í næstu viku. Þjóðhátíðardagur dana í dag og allt ýmist lokað eða opið. Sem dæmi fór til læknis í morgun og búðin hér á móti er opin en ég hefði verið í fríi í vinnunni ef ég væri ekki í verkfalli sem ég er í fríi í. Hér er líka feðradagurinn í dag, til hamingju með það Júlíus Jónasson.
Sambúð mín og fuglaparsins gengur ágætlega, frú dúfa er búin að liggja á hreiðrinu síðan í gærmorgun en þurfti aðeins að bregða sér frá áðan og ég notaði tækifærið til könnunarleiðangurs, engin egg komin ennþá, hverslags er þetta, maður spyr sig. En henni blessaðri kerlingunni virðist vera slétt sama þó ég sé með opnar dyrnar út og að sníglast fyrir innan þær. Ég er reyndar búin að sjá að ég verð víst að nýta garðinn vel í sumar svo hún fái frið fyrir mér. Þetta reyndar minnir mig á að ég þarf að vökva sólblómin mín en það vill svo helvíti vel til að þau eru í kassa sem hangir fyrir ofan hreiðrið. Svalirnar mínar eru greinilega staðurinn, verst að þær eru ekki stærri þá gæti ég leigt þær út.