föstudagur, júní 06, 2008

Er að lesa bók, já og ekkert fréttnæmt við það. Nema eitt = bókin er eftir íslenskan höfund en búið að þýða hana yfir á dönsku. Jabb, eftir Arnald og ég held hún heiti Röddin á íslensku, á dönsku er það Stemmen. Bara alveg, get sko mælt með henni.
Dúfan situr enn á hreiðrinu og sambúð okkar gengur ágætlega, en það voru engin egg komin í dag, maður gæti haldið að vinkonan væri bara móðursjúk, kannski gerist bara aldrei neitt og hún heldur áfram að liggja á hreiðrinu eins og klessa, er þetta kannski einhver undirbúningur? Ja, hvað veit ég, ekki þekki ég neitt inn á dúfur. Þetta er ekki bréfdúfa með skilaboð til mín, nema að hún hafi gleypt þau og sé að vonast til að þau komi út með skítnum, og ekki er þetta innilokuð dúfa í búri á Íslandi og þar með er víst dúfnaþekking mín upptalin. Ég skundaði niðrí garð í dag og hélt mér þar í dágóðan tíma svo blessunin fengi nú frið. Ég held ég sé kannski brunnin á milli herðablaðanna eftir það ferðalag, er allavega aum þar.
Já og enn ein sagan af bakgrunni mínum, menningarlegu uppeldi eða hvað það nú heitir og hvernig það stangast á við danskan hugsunarhátt. Eftir að hafa deilt út ýmunduðum launaseðlum, límmiðum og ég veit ekki hvað á miðvikudagsmorguninn skellti ég mér á kaffihús með konunum sem ég vinn með, allar fengum við okkur bara kaffi nema ein sem ákvað að fá sér samloku líka, samlokan var flott og vel útilátin, jæja hún borðaði eitthvað af henni og salatið sem var með, tók svo poka upp úr veskinu og stakk afganginum af samlokunni ofan í pokann og niðr´í veskið. Sko ég veit ekki þegar ég er södd og get ekki meira þá leifi ég. Ég skil nú ekki danskan hugsunarhátt alltaf vel, ætli ég skilji ekki dúfuna vinkonu mína betur. Nú getur maður spurt sig til hvers hún var að kaupa samlokuna, er þetta einhver sparnaður af einhverju tagi? 2 máltíðir, þarf bara að huga að meðlæti með, man nú ekki hvað hún kostaði, en þær voru að tala um hvað þetta væri ódýr samloka og vegleg. Þó manneskjan sé leikskólakennari á skítalaunum, þá er hún samt deildarstjóri með einhverra áratuga reynslu og þar með á betri launum en ég og að auki á hún mann sem vinnur líka úti, nei ég skil ekki þennan hugsunarhátt enda kannski ætti ég peninga og minna af einhverju ef ég skildi þetta. Held ég ætti nú samt ekki mann, ég er engin eyðslukló sem fæli fólk frá mér. Nísku og það að stinga öllu á sig skil ég bara ekki.
Og á meðan ég man, mæli ekki með námi þar sem launin eru svo léleg að það er stanslaus verkfallsumræða eða samningar alltaf annað slagið lausir. Þetta er svo leiðinlegt, þvílíkt hangs, ekki alveg minn kaffibolli, held það sé samt gott að kynnast svona aðgerðarleysi en ég kýs nú frekar hinn lífsstílinn að hafa aðeins alltof mikið að gera. Það dugði mér ágætlega að reyna að aðlagast eðlilegum lífsstíl þ.e. vinna virka daga og eiga frí um helgar, allar helgar. Og svo er vinnuvikan hér í Danmörku bara 37 tímar (100%), en ég var ekki búin að vera hér lengi þegar ég vissi að þetta væri yfirvofandi, kannski 1 - 2 vikur. Hjálp!!! Ég enda á geðdeild, gengin af göflunum. En jæja, ég hef allavega veðurblíðuna, búin að vera heppin með veður þessar 3 vikur. Stanslaus sól og blíða, fyrir utan 2 rigningarmánudaga. Já og get svo sannarlega klætt mig eins og mér sýnist á meðan, í stuttbuxum, stuttum pilsum, berleggjuð, á bikinítopp eða í alltof flegnum bolum. Þegar ég er að verkfallast fer ég svo í bleika verkfallsbolinn utan yfir en hann er svo stór á litlu mig að hann er eins og kjóll. FRELSI. Þurfti aðeins í búð í dag og skellti mér í strætó á stuttbuxum og hlýralausum bol, hverjum var ekki sama, held að það hafi nú engin spáð í fataleysinu. Á litla Íslandi hugsa ég að þetta hefði valdið árekstrum fyrir utan að þar hefði maður nú haft eitthvað hlýrra með sér að fara í, verandi bíllaus.