þriðjudagur, júní 24, 2008

Var að lesa bloggið hjá Helgu Hinriks og mér datt nú eitt og annað í hug sem maður gerði sem barn, t.d. að renna sér niður sneiðinginn, sem þá var ekki búið að loka eða á skautum eftir götunni ef var svell (og ekki var hún lokuð) eða á plastpokum niður til móts við slippinn. En ekkert af þessu spáði ég í í gær þegar ég var að halda vöggustofubörnunum frá að fara í hinn enda garðsins þar sem leikskólabörnin voru að brenna hexið á báli.
Nú fór ég að velta því fyrir mér hvernig koma þessi börn út í lífið, börn í dag sem mega ekki neitt? Verða þau betur eða verr undirbúin? Þau verða að öllum líkindum lifandi en erum við hin ekki það líka? Ja allavega flest.

föstudagur, júní 20, 2008


Selma var að senda mér myndir af bróðursyni mínum, þvílíka dúllan.
Annars lítið að frétta, komin í helgarfrí og allt óráðið nema að ég er að hugsa um að þvo þvott.
Eyrnasérfræðingurinn getur ekki læknað jafnvægisskortinn og svimann, allar tilraunir búnar þar og ég á að skunda til næsta sérfræðings. En þarf víst áður að fara til heimilislæknisins og fá tilvísun.

þriðjudagur, júní 17, 2008

17. júní

er í dag, hæ, hó jibbý jei og jibbý jei. Til hamingju með það, og ég byrjaði að vinna aftur.
Annars stefnir allt í að ég sé á leið til Íslands aftur, þannig að ef einhver veit um vinnu þá eru allar ábendingar vel þegnar.

laugardagur, júní 14, 2008

Held bara að ég sé á leið í vinnu

Þann 17. júní. Var að lesa á Buplinu og fór svo inn á mbl.is og þetta er orðrétt þaðan:
Jesper Due, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla tekur í sama streng og segir það sama eiga við um 60.000 leikskólakennara sem sömdu við sveitarfélögin í gær. Segir hann jafnvel vafamál hvort stéttarfélag þeirra (BUPL) muni lifa verkfallið af vegna alls þess kostnaðar sem því hefur fylgt og þess hversu rýr uppskeran sé í raun í ljósi þess.
Verkfall leiksólakennara hefur kostað BUPL hátt í 40 milljónir danskra króna á dag og hefði verkfallið staðið fram í næstu viku hefði launakostnaður annarra starfmanna á leikskólum, sem lokað var vegna verkfallsins, bæst við kostnað félagsins. Segir Due að það hefi í raun þýtt það að BUPL hefði dáið píslarvættisdauða fyrir félagsmenn sína.
Jabb þegar stendur til að loka leikskólum algjörlega þá er víst peningurinn skyndilega til. En kemur allt í ljós 7 dögum síðar, því það á að fara fram allsherjaratkvæðagreiðsla.
Þetta er reyndar mjög áhugaverð grein sem ég klippti þetta úr því þar kemur fram að heilbrigðisstéttir sem hafa verið í verkfalli í 8 vikur hafi einnig samið, en að vegna lántöku starfsmannafélagsins þar eins og með Bupl þurfi félagsmenn að eyða næstu árum í að borga lánið niður og vegna vaxandi verðbólgu, matarverðs osfrv. þá fái viðkomandi félagsmenn í raun minna í vasann. Á þá helvítis verkfallið eftir að koma aftan að manni?
Held þetta sé dæmt til að vera illa launuð stétt.

Guð minn góður

Það er sko ekki ofsögum sagt að ég hafi of mikinn tíma að drepa. Venjuega hef ég allt of mikið að gera, vinn of mikið og treð öllu sem mig langar og langar ekki að gera þar inn í. Núna mæti ég svona 2 -3 tíma á dag, hingað og þangað um Kaupmannahafnarsvæðið, hlusta á ræður eða einhverjar planlagningar eða fer í kröfugöngur, ja eða eins og á föstudagsmorguninn reyni að drekkja mér á Íslandsbryggju. En hvað gerir maður við alltof mikinn frítíma þegar maður getur ekki einu sinni drukknað? Hummmmmmmmmmm, ég hef ekki farið í sokka í heilan mánuð, það hefur nú ekki gerst áður, ég fór í þessa agalegustu fótsnyrtingu hér fyrr í kvöld yfir sjónvarpinu, fótabað og tilheyrandi og naglalakkaði táneglurnar, það hef ég nú heldur aldrei gert áður, þannig að nú eru þær ljósbleikar. Já og svo klippti ég á mér toppinn. Rembist við allt til að leka ekki niður af leiðindum. Held ég kannski þrífi aðeins á morgun, æi það veitir eiginlega ekki af.
En annars er letin og leiðindin svo mikið að ég fór í náttbuxur og bol í morgun og er ennþá í þeim flíkum.

Myndir frá því í gærmorgun




Svona lítur fjöldi bleikra skipa út.
Ég hef alltof mikinn tíma í eitthvað hangs.

föstudagur, júní 13, 2008

og Íslendingsdruslan...



var næstum drukknuð í tjörninni við KL bygginguna á Islandsbryggju í morgun, slíkur var ákafinn við að sjósetja skip.



Fann myndina á netinu og hefur greinilega verið smellt af á réttu augnabliki því ef grannt er skoðað sést hönd halda í mig og ég man að sagt var: passaðu þig á að detta ekki út í

fimmtudagur, júní 12, 2008

Er enn í verkfalli, ekkert nýtt í þeim efnum. haha. En jæja fæ allavega nóg að hugsa, og enn liggur dúfan á hreiðrinu og enginn egg komin ennþá. Læknirinn er að verða að fimmtudagsvenju hjá mér, eitthvað var gert með kristalsdæmið í innra eyra og ég á svo að gera einhverjar æfingar hér heima næstu viku og svo kemur allt í ljós. Veit ekki mér líður að sumu leyti eins og áður en að öðru leyti eitthvað öðruvísi, einhver tilfinning. Fer á Íslandsbryggju á morgun að setja bleik skip á flot er nebbla í bleiku verkfalli. Ætti kannski að taka myndavélina með.
Svo er bara að vonast eftir hrottalegri sól og blíðu um helgina. Held nebbla að bakið sé búið að jafna sig. Bla, bla, bla, bla, bla, bla.............................................................................Veit ekkert hvað ég er að blaðra. Dettur allt í einu í hug það er svo mikið af skrítnu fólki hérna, bara að bíða eftir lest eða strætó og maður sér örugglega einhvern.

miðvikudagur, júní 11, 2008

Var...

...að lesa bloggið hjá systur minni hún er að tala um vesturferðina í fyrra, ooooooooooooooo það var svo gaman, heil vika bara í ævintýri.

Stolið frá Selmu mákonu minni

Réttindin Mín!

1. Ég hef rétt til að biðja um það sem ég vil.
2. Ég hef rétt til að segja "nei" við beiðnum eða kröfum sem ég get ekki sinnt.
3. Ég hef rétt á að láta í ljós allar mínar tilfinningar, jákvæðar og neikvæðar.
4. Ég hef rétt til að skipta um skoðun.
5. Ég hef rétt á að gera mistök og þarf ekki að vera fullkomin/n
6. Ég hef rétt til að fylgja eigin gildum og viðhorfum.
7. Ég hef rétt á að segja "nei" við hverju sem ég er ekki tilbúin til, hverju sem er óáreiðanlegt eða óvirðir mín gildi.
8. Ég hef rétt til að ákveða mína eigin forgangsröð.
9. Ég hef rétt til að gangast ekki í ábyrgð fyrir hegðun annarra, verkum, tilfinningum eða vandamálum þeirra.
10. Ég hef rétt á að vænta heiðarleika af öðrum.
11. Ég hef rétt á að reiðast einhverjum sem mér þykir vænt um.
12. Ég hef rétt á að vera einstök/einstakur.
13. Ég hef rétt á að segja "ég er hrædd/ur"
14. Ég hef rétt á að segja "ég veit það ekki".
15. Ég hef rétt á að afsaka ekki hegðun mína né gefa á henni skýringar.
16. Ég hef rétt til að taka ákvarðanir sem byggjast á tilfinningum mínum.
17. Ég hef rétt til að hafa þörf á tíma og svigrúmi fyrir sjálfa mig.
18. Ég hef rétt til að vera gáskafull og léttúðug.
19. Ég hef rétt til að vera heilbrigðari en aðrir sem ég umgengst.
20. Ég hef rétt til að vera í umhverfi sem er laust við andlegt eða líkamlegt ofbeldi.
21. Ég hef rétt á að eignast vini og líða vel innan um fólk.
22. Ég hef rétt til að breytast og vaxa.
23. Ég hef rétt til að aðrir virði mínar þarfir og langanir.
24. Ég hef rétt á að aðrir sýni mér virðingu.
25. Ég hef rétt á að vera hamingjusöm/hamingjusamur.

Og svona var það

smella á linkinn

Dúfnagreyið komið aftur á hreiðrið þegar ég kom heim í kvöld en geðheilsa mín ekki komin í lag. Á Íslandi er það stöðutákn að eiga barn, hef ekki orðið vör við að því sé þannig háttað hér þó í báðum löndum sé kennarastaðan illa launuð. Íslenskir foreldrar álíta að leikskólakennarar séu eingöngu til að passa börnin þeirra og virðast ekki átta sig á að dagmæður eru til þess, en já dagmæður eru of dýrar þannig að betra er að koma börnunum í þessa skóla og horfa fram hjá því að orðið skóli komi fyrir eða kennari í starfsheiti starfsfólksins. Foreldrarnir sem hafa lagt það á sig að eiga þessi börn telja sig líka eiga heimtingu á því að þurfa helst aldrei að sjá þessi börn sín, leikskóla------- geta bara séð um það launalaust. Hérna voru foreldrar fyrir verkfallið: bara fínt hjá ykkur við leysum okkar mál og svo hafa afar og ömmur verið að koma upp að fólki í verkfalli og þakka þeim fyrir allan tímann sem þau fá með barnabörnunum. Þeim leikskólum sem ekki hefur verið lokað algjörlega nú þegar verður lokað 17. júní. Það þýðir 500.000 börn án vistunar.
Við sátum á pöllunum í fyrirspurnunum í Gladsaxe Raadhus í dag ekki vildi borgarstjórnin nú svara neinu um launamálin. Já og svo er verkfallssjóðurinn víst tómur og komið hefur í ljós að Árósarbúar eru svo duglegir að nýta hann, tekið verður lán og afborganir af því bætast ofan á gjaldið í starfsmannafélagið til næstu 10 ára. Frá og með núna lækka launin töluvert, þar til samið hefur verið. Hvern langar að gerast leikskólakennari? Hérna er það Pædagog og er miklu víðara starfsheiti, það virðist vera almennur misskilningur hjá almenningi á Íslandi að ef þú ert leikskólakennari þá skaltu vinna á leikskóla og ef þú ert grunnskólakennari þá skaltu vinna í grunnskóla. Þegar ég var í námi spurði ég mig oft að því hvort ég hefði valið vitlaust, eftir námið hef ég oft spurt mig og alltaf er svarið það sama, enn er það það sama ekki spurning, leiðinleg illa borguð vinna, nei takk! Veit ekki alveg hvað verður en eitthvað verður það.

Jæja ætli þessi hrottalega sólarblíða sé þá búin, ágætisveður í gær en hellingsvindur, skýjað en sól á köflum, og enn er veðrið eins nema áðan var þetta þvílíka úrhelli. Var að skoða veðrið og það virðist vera spáð eins fyrir næstu daga. Jibbý eða eitthvað, jæja ég hætti þá að brenna. Er enn í verkfalli og engin egg komin, hef reyndar ekkert séð dúfnagreyið í dag þannig að hún er kannski búin að gefast upp á þessu. Ja hver veit.

mánudagur, júní 09, 2008

Regionaludsigt for København og Nordsjælland

Þetta átti að vera veðurspáin fyrir næstu daga en veit ekkert hvað birtist, en eitt er víst brunablettirnir á Kaupmannahafnarbúum ættu að fá tíma til að jafna sig.

Held ég sé bara að missa geðheilsuna






Hérna er hún á svölunum, hún liggur alltaf á hreiðrinu en það koma aldrei nein egg, ég bara skil þetta ekki alveg og ég sem reyni að eyða tíma mínum einhversstaðar annars staðar til að trufla hana nú ekki. En hvað veit ég svo sem um þetta? Ekki er ég neinn fuglafræðingur.
Djöfull er þetta leiðinlegt hangs, er með ofnæmi fyrir verkfalli og er líka með ofnæmi fyrir leikskólum. Hefði átt að mennta mig í einhverju öðru en að vinna með fólk og ég held bara núna að skúringarvinna sé meira heillandi en þetta. Hahhhhhhh hef reyndar unnið skúringarvinnu og hún er meira heillandi. Mörg ár síðan en getur varla verið verr borguð en þetta.

Þarf ekki að mæta eitt né neitt fyrr en klukkan 16.00 á morgun, en gæti nú kannski henst út í garð og sólað mig í fyrramálið ef ég vakna snemma. Get svo svarið það, það eru rauðar rendur á hálsinum á mér, það hefur nú aldrei gerst áður.

Ég hefði bara átt að gerast verkfræðingur, ætti kannski að athuga það nám á netinu, hummmmmmmmmmmmm. Allavega það sýnir sig maður á ekki að vinna með fólk, það er illa borgað. Eða kannski bara að fara og læra einhverja tölvunarfræði. Jæja allavega háskólamenntun þar sem launin eru 7% hærri en hjá ómenntuðu starfsfólki og ríkiskassinn neitar að fara hærra en 12,8. Hahhhhhhhhhhh ekki alveg að gera sig.

föstudagur, júní 06, 2008

Vá ég er Íslensk

Alltaf að tuða um veðurblíðuna, var að skrolla yfir síðustu pósta og held að allstaðar sé minnst á veðrið og blíðuna sem verið hefur og alltaf er ég brunnin einhversstaðar, en það skondna er að sá bruni hefur alltaf verið horfinn daginn eftir, þannig að nú er að vona að sviðinn sem er á milli herðablaðanna verði horfinn á morgun.

Er að lesa bók, já og ekkert fréttnæmt við það. Nema eitt = bókin er eftir íslenskan höfund en búið að þýða hana yfir á dönsku. Jabb, eftir Arnald og ég held hún heiti Röddin á íslensku, á dönsku er það Stemmen. Bara alveg, get sko mælt með henni.
Dúfan situr enn á hreiðrinu og sambúð okkar gengur ágætlega, en það voru engin egg komin í dag, maður gæti haldið að vinkonan væri bara móðursjúk, kannski gerist bara aldrei neitt og hún heldur áfram að liggja á hreiðrinu eins og klessa, er þetta kannski einhver undirbúningur? Ja, hvað veit ég, ekki þekki ég neitt inn á dúfur. Þetta er ekki bréfdúfa með skilaboð til mín, nema að hún hafi gleypt þau og sé að vonast til að þau komi út með skítnum, og ekki er þetta innilokuð dúfa í búri á Íslandi og þar með er víst dúfnaþekking mín upptalin. Ég skundaði niðrí garð í dag og hélt mér þar í dágóðan tíma svo blessunin fengi nú frið. Ég held ég sé kannski brunnin á milli herðablaðanna eftir það ferðalag, er allavega aum þar.
Já og enn ein sagan af bakgrunni mínum, menningarlegu uppeldi eða hvað það nú heitir og hvernig það stangast á við danskan hugsunarhátt. Eftir að hafa deilt út ýmunduðum launaseðlum, límmiðum og ég veit ekki hvað á miðvikudagsmorguninn skellti ég mér á kaffihús með konunum sem ég vinn með, allar fengum við okkur bara kaffi nema ein sem ákvað að fá sér samloku líka, samlokan var flott og vel útilátin, jæja hún borðaði eitthvað af henni og salatið sem var með, tók svo poka upp úr veskinu og stakk afganginum af samlokunni ofan í pokann og niðr´í veskið. Sko ég veit ekki þegar ég er södd og get ekki meira þá leifi ég. Ég skil nú ekki danskan hugsunarhátt alltaf vel, ætli ég skilji ekki dúfuna vinkonu mína betur. Nú getur maður spurt sig til hvers hún var að kaupa samlokuna, er þetta einhver sparnaður af einhverju tagi? 2 máltíðir, þarf bara að huga að meðlæti með, man nú ekki hvað hún kostaði, en þær voru að tala um hvað þetta væri ódýr samloka og vegleg. Þó manneskjan sé leikskólakennari á skítalaunum, þá er hún samt deildarstjóri með einhverra áratuga reynslu og þar með á betri launum en ég og að auki á hún mann sem vinnur líka úti, nei ég skil ekki þennan hugsunarhátt enda kannski ætti ég peninga og minna af einhverju ef ég skildi þetta. Held ég ætti nú samt ekki mann, ég er engin eyðslukló sem fæli fólk frá mér. Nísku og það að stinga öllu á sig skil ég bara ekki.
Og á meðan ég man, mæli ekki með námi þar sem launin eru svo léleg að það er stanslaus verkfallsumræða eða samningar alltaf annað slagið lausir. Þetta er svo leiðinlegt, þvílíkt hangs, ekki alveg minn kaffibolli, held það sé samt gott að kynnast svona aðgerðarleysi en ég kýs nú frekar hinn lífsstílinn að hafa aðeins alltof mikið að gera. Það dugði mér ágætlega að reyna að aðlagast eðlilegum lífsstíl þ.e. vinna virka daga og eiga frí um helgar, allar helgar. Og svo er vinnuvikan hér í Danmörku bara 37 tímar (100%), en ég var ekki búin að vera hér lengi þegar ég vissi að þetta væri yfirvofandi, kannski 1 - 2 vikur. Hjálp!!! Ég enda á geðdeild, gengin af göflunum. En jæja, ég hef allavega veðurblíðuna, búin að vera heppin með veður þessar 3 vikur. Stanslaus sól og blíða, fyrir utan 2 rigningarmánudaga. Já og get svo sannarlega klætt mig eins og mér sýnist á meðan, í stuttbuxum, stuttum pilsum, berleggjuð, á bikinítopp eða í alltof flegnum bolum. Þegar ég er að verkfallast fer ég svo í bleika verkfallsbolinn utan yfir en hann er svo stór á litlu mig að hann er eins og kjóll. FRELSI. Þurfti aðeins í búð í dag og skellti mér í strætó á stuttbuxum og hlýralausum bol, hverjum var ekki sama, held að það hafi nú engin spáð í fataleysinu. Á litla Íslandi hugsa ég að þetta hefði valdið árekstrum fyrir utan að þar hefði maður nú haft eitthvað hlýrra með sér að fara í, verandi bíllaus.

Uppfræðingu takk

Veit einhver eitthvað um 2 ára ísbjörn sem á að hafa synt frá Austurhluta Grænlands til Íslands núna fyrir stuttu síðan? Mér var sagt þetta út í garði í dag. Var víst allavega í fréttum hér.

fimmtudagur, júní 05, 2008

Stanslaus sól

Bara alltaf hreint! og svo heitt að það er erfitt að sofna á kvöldin. Enda sýnir hitamælirinn 17 - 20 í plús á tölvuskjánum núna seint öll kvöld í Köben. Ég er enn í verkfalli, hvar endar þetta eiginlega? ja maður spyr sig. Fór til læknisins í morgun og er núna skráð í einhverja aðgerð í næstu viku. Þjóðhátíðardagur dana í dag og allt ýmist lokað eða opið. Sem dæmi fór til læknis í morgun og búðin hér á móti er opin en ég hefði verið í fríi í vinnunni ef ég væri ekki í verkfalli sem ég er í fríi í. Hér er líka feðradagurinn í dag, til hamingju með það Júlíus Jónasson.
Sambúð mín og fuglaparsins gengur ágætlega, frú dúfa er búin að liggja á hreiðrinu síðan í gærmorgun en þurfti aðeins að bregða sér frá áðan og ég notaði tækifærið til könnunarleiðangurs, engin egg komin ennþá, hverslags er þetta, maður spyr sig. En henni blessaðri kerlingunni virðist vera slétt sama þó ég sé með opnar dyrnar út og að sníglast fyrir innan þær. Ég er reyndar búin að sjá að ég verð víst að nýta garðinn vel í sumar svo hún fái frið fyrir mér. Þetta reyndar minnir mig á að ég þarf að vökva sólblómin mín en það vill svo helvíti vel til að þau eru í kassa sem hangir fyrir ofan hreiðrið. Svalirnar mínar eru greinilega staðurinn, verst að þær eru ekki stærri þá gæti ég leigt þær út.

mánudagur, júní 02, 2008

Held bara að ég sé búin að slá því föstu að það verði sól á morgun og ég úti að dinglast, skelli kannski bara í þvottavél og verð úti í garði á meðan.

Annars má alveg kvitta.

Enn í verkfalli

Og lítið um það að segja. Veðrið stöðug snilld, þannig að það er svosem hægt að dinglast úti. Það var samt rétt á mörkunum í Esbjerg um helgina, það var allt of heitt. Það var eiginlega bara betra að vera inni, guð minn góður þetta hélt ég að ég ætti aldrei eftir að segja eða hugsa, en svona er það nú. Undanfarið hafa tvær dúfur verið að sníglast á svölunum mínum, svalirnar eru ekki stórar þetta eru eiginlega bara tvöfalldar dyr og handrið, stéttin er örfáir sentimetrar, en allavega dúfurnar voru þarna í morgun og þegar ég kom heim í dag þá var þetta þar.


Eigendurnir hafa svo ekkert sést í dag og spurning hvort þetta sé bara eitthvað ætlað mér, en ég bíð spennt hvað gerist.











Svo er það læknirinn aftur á fimmtudaginn og nú vona ég svo sannarlega að eitthvað sé komið í ljós og eitthvað verði gert því svona get ég bara ekki verið.

sunnudagur, júní 01, 2008

enn í verkfalli


Ég og minn fagri bleiki bolur í rigningu á mánudegi fyrir viku.