laugardagur, maí 24, 2008

Sól og blíða

Já þetta er eiginlega alveg ágætt, er að stikna einn daginn til viðbótar. Sit í svalardyrunum, máttleysið alveg að fara með mig. Komst ekki út í dag fyrir því, en jæja góðu fréttirnar kom einhverju í verk hér heima í staðinn. Og nú eru þau að gifta sig í sjónvarpinu blessað fólkið, Jóakim og María. Sem minnir mig á það sá um daginn í bakaríinu í Kvickly að þeir væru að taka niður pantanir fyrir lagköku dagsins í dag: hún er 6 - 8 manna og á toppnum er bleikt eða rautt hjarta sem inn í stendur J og M. Guð minn góður segi ég bara!
En jæja er að bíða eftir Eurovision, en ætlaði víst að ræða síðasta fimmtudag og föstudag.
Byrjaði fimmtudagsmorguninn á að ræða lífsins gagn og nauðsynjar við Gurru í símann drullaðist svo að Norrebro St. þar sem ég átti að mæta í kröfugöngu. Fékk að vita að það ætti að labba að Christiansborg og vildi nú fá að vita hvað það væri, gamli þingstaður Dana og ég já og einnig íslendinga. Við löbbuðum svo af stað í snilldarveðri = sól og blíðu. Var viss um að nú myndi ég brenna en nei það gerðist ekki. Við löbbuðum og löbbuðum og hver þarf eiginlega bókina hans Guðlaugs Arasonar þegar hann kemst í kröfugöngur í Köben? Við löbbuðum eftir Norrebrogade en ekki sá ég Laundromat coffeeshop eða hvað það heitir en mér var sagt að þarna byggju margir arabarar og að þeir rækju verslanir og veitingastaði þarna. Jæja stuttu áður en göngunni var lokið, rak ég augun í götuskiltið og mér varð hugsað til Öllu systur minnar og Elmars Freys og ferðalagsins sem við fórum í fyrrasumar vestur á firði. Gatan heitir Bremerholm, ég heimtaði að fá að vita hvar fangelsið hefði staðið og tilkynnti að þangað hefðu allir mestu glæpamenn Íslands verið sendir á sínum tíma. Er það ekki ágætt ef þú hefur ekki gáfurnar eða efnahag foreldranna til að sigla erlendis þá geristu bara glæpamaður, fremur einhverja viðurstyggð og ert sendur á Brimarhólm. Þetta sumar er ég búin að komast að því hvar Brimarhólmur stóð, í fyrrasumar fór ég með þeim mæðginum að Sjöundá og sumarið þar áður gengum við mamma um kirkjugarðinn við Suðurgötu þar sem hún Steinunn er í dag grafinn, áður var hún dysjuð á Skólavörðuholtinu en það hef ég oft gengið í gegnum tíðina. Það er nú bara fróðlegt hvert næsta sumar dregur mig, nema að ég sé kannski nú kvitt við þetta ágæta ógæfusama fólk. Þegar komið var að Kristjánsborg klifraði ég upp á stall styttu sem þar stendur og sat þar undir ræðuhöldum og söng.
Jæja parið í sjónvarpinu er nú gift og komið út úr kirkjunni.
Eftir að hafa setið þar og hlustað, já og drukkið vont freyðivín var haldið heim á leið. Þá langaði einni í siglingu frá Nyhofn og ég var sko til í það og skellti mér með. Það var snilld, sá litlu hafmeyjuna aftan frá ofl. Sá einnig Dannebrog (konungsskipið) mikið er það nú fínt en ég myndi nú ekki vilja sigla á því, finnst það ekki traustvekjandi! En fallegt er það og algjör skrautsýning. Eftir þessa siglingu dröslaðist ég nú bara heim, var komin þangað um 18.30 tók smá sólbað og horfði svo á júróvision undankeppnina. Friðrik Ómar og hún sem ég man ekki hvað heitir stóðu sig nú bara vel og ég kaus þau sko að því tilefni. Svo er það enn meira í kvöld, búin að kaupa inneign og meir að segja smá nammi og síminn er í hleðslu, allt tilbúið fyrir kvöldið.
Jæja svo er komið að föstudeginum sem var nú bara hálffyndinn dagur.
Mætti í eina 2 tíma þar sem næsta vika í verkfalli var undirbúin. Ég málaði á flagg og var síðan úti með það í von um að það þornaði. Fékk síðan bleikt stórt hjarta með bleikri og hvítri tjullslaufu, á að mæta með það á mánudaginn, ég reyndi reyndar að týna því oft og mörgum sinnum með því að týna því og gleyma víðsvegar en það fannst alltaf aftur og er nú í öruggri vörslu upp á borði hér heima hjá mér.
Ég tók strætó niður á Ráðhústorg og ætlaði að taka togið og fara í ræktina og dinglast heim á leið. En ég ílengdist niðr´´a torgi, þar sem ég sat á bekk komu tvær útlenskar konur sem vildu vita hvar þær væru staddar, hvort húsið þarna væri Ráðhúsið og hvort styttan þarna væri af H.C.Andersen. Reyndi mitt besta í fræðslunni og hugsaði svo djís ég er jafnmikill útlendingur og þið, ég er ekki dani. Síðan kom sígaunakelling (eða hvað hún nú var) og reyndi að pranga upp á mig gullfesti, hún ætlaði ekki að gefa sig og ég sko ekki heldur. "Hún færi þér svo vel, er ekta fyrir þig, kostar bara 200 dkk. Halló er það ekki svoldið dýrt út á götu? Kannski var það bakpokinn minn sem gerði það að verkum að hún hélt ég væri útlendingur með sand af seðlum í veskinu. Jæja hún mátti labba í burtu án þess að hafa selt menið. Kjaftæðið að þetta men væri ekta ég, það var fallegt en ekki minn stíll, hefði verið fallegt á Öllu systur minni, hefði fallið að hennar smekk, en ég hefði nú aldrei leyft einhverri kellingu að ræna hana um 200 kr. út á götu. Hversu ekta var þetta men, það veit enginn, sennilega hefði kellingin logið til um það. En þá dettur mér allt í einu eitt í hug. Ég helt að það væru nú bara þjóðverjar sem væru þekktir fyrir að smyrja sér nesti, kannski er það uppeldið mitt sem kemur í veg fyrir að ég geri það og gerir að verkum að mér dettur það ekki einu sinni til hugar, kannski er það íslenska stoltið, kannski er þetta grafið í íslensku þjóðarsálina. Sama er mér þó ég sé fátækur leikskólakennari í verkfalli í þokkabót en svona lágt skal ég aldrei leggjast. Á morgnana fáum við alltaf kaffi, rúnstykki, vatn og gos, smjör og ost. Á föstudagsmorgunin sá ég einn vinnufélaga minn smyrja sér rúnstykki, taka poka upp úr veskinu setja rúnstykkið ofan í og ofan í tösku. Þetta gerði hún án þess að fara nokkuð í felur með það, kannski er þetta viðtekin venja hér, ég veit það ekki en mér blöskraði. Þegar ég hafði setið á torginu í nokkra tíma ákvað ég að labba aðeins niður strikið. Efst/fremmst á strikinu sitja alltaf menn sem eru að plokka peninga af fólki. Algengt er að þeir séu með 3 pínu-, pínulitla kassa og eina kúlu, þeir hreyfa kassana ofboðslega hratt og svo á maður að giska hvar undir kúlan er. Jæja þegar ég var að labba þarna fór ég að fylgjast með einum, hann hreyfði kassana ekki hraðara en mín augu nema, þegar einn hafði giskað vitlaust sagði ég það er undir þessum þarna, maðurinn sagði sýndu mér peningana þína og ég læt þig fá 1000dkk, ég spurði hvað mikið, hann endurtók: sýndu mér peningana þína og ég sagði:nei (ætlaði sko ekki að sýna honum ofan í veskið mitt) annar maður sem stóð þarna sagði láttu hana fá peninginn, enn annar maður borgaði fíflinu sem lyfti upp lokinu lét manninn fá peninginn og hljóp síðan burt frá öllu saman en ég labbaði stolt í burt. Hefði kannski getað verið 1000 kr. ríkari sem ég hefði auðveldlega getað eitt á Strikinu, en ég fór bara og keypti mér ís á 10 kr. algjörlega sátt við sjálfa mig. Varð reyndar hugsað til Elmars Freys og Davíðs, ætli mannfýlan hefði reynt þetta á börn sem í þokkabót eru mállaus á danska tungu? Ætli hann sé ekki heima hjá sér að æfa sig.